Velkomin(n) á Íslendingabók, upplýsingasíðu Íslendinga í Noregi. Tilurð síðunnar má rekja til Facebook-samfélags Íslendinga sem tekið hafa upp búsetu í Noregi, eru að velta fyrir sér eða undirbúa flutninga til Noregs. Eins og gengur og gerist er margs að spyrja í sambandi við norskt samfélag, vinnumarkað, vörur, þjónustu, tilhögun flutninga og ótalmargt annað og eru að jafnaði nokkrar fyrirspurnir á dag lagðar fram á Facebook-síðunni sem „íbúarnir“ leggja sig í líma við að svara eins og þeir hafa þekkingu og reynslu til eftir að hafa búið í Noregi um lengri eða skemmri tíma.

Eðlilega vilja sömu eða keimlíkar spurningar berast ítrekað og hafa hugmyndir um sérstaka upplýsingasíðu með tilbúnum svörum skotið upp kollinum annað slagið en neistinn og framkvæmdagleðin verið eitthvað erfið í gang. Að lokum tókst fimm einstaklingum, sem verið hafa húsgangar á Facebook-síðunni, að hrista af sér doðann, hleypa hugarfóstrinu af stokkunum og opna með viðhöfn 1. desember 2013. Ætlunin er ekki að fara í samkeppni við hina ágætu upplýsingaþjónustu Halló Norðurlönd heldur frekar reyna að búa til upplýsingaveitu sem byggir á persónulegri reynslu og þekkingu einstaklinga sem allir voru einhvern tímann nýir í Noregi, hafa gert eitthvað eða megnið af þeim mistökum sem búseta í nýju landi býður upp á og sjá kannski örlítið lengra en það sem lög, reglur og Norðurlandasamningar eitt og sér hefur að segja.

Þá stendur Facebook-síðan Íslendingar í Noregi til hliðar við þessa síðu sem gagnvirkur umræðu- og upplýsingagrundvöllur þurfi lesendur dýpri innsýn í einhver málefni, svo sem hvernig sé að búa á hinu eða þessu svæðinu, hvað rjómaostur heiti á norsku eða bara hvort menn séu búnir að smakka lutefisk. Takist okkur með þessu verkefni að auðvelda einhverjum upplýsingaleitina eða gera fyrstu skrefin í nýju landi örlítið léttari er tilganginum náð. Gangi þér vel.

Ritstjórar síðunnar eru:

Atli Steinn Guðmundsson – Prófarkalestur
Ingvar Örn Ingólfsson – Tæknistjórn
Bjarni H. Valsson
Ingimundur K. Guðmundsson
Kristján Eyfjörð Hilmarsson