NAV header
Fyrst aðeins um NAV og hvernig best er að nálgast aðstoð og upplýsingar þar

Mikið af því sem fjallað er um í þessum kafla heyrir undir NAV, atvinnu-, trygginga- og félagsmálastofnun Noregs,  og grípur þessi stofnun óhjákvæmilega á einn eða annann hátt  inn í líf okkar sem búum hér í Noregi, hvort sem við erum frísk og í vinnu,  eða þurfum aðstoð vegna atvinnuleysis, veikinda og/eða fötlunar.

Þá er rétt að geta þess að langbesta leiðin til að eiga við og sækja upplýsingar til NAV, um t.d. hver réttur manns er og hvernig best er að leita aðstoðar, er að setja sig vel inn í það hvernig heimasíða stofnunarinnar virkar, þar eru allflest eyðublöð sem hugsanlega þarf tiltæk, til þess að annaðhvort hala niður eða fylla út beint á síðunni, athuga ber líka að allar umsóknir og önnur samskifti við stofnunina eru skráð og dagsett ef maður gerir þetta þannig, það hefur stundum reynst misbrestur á slíku við persónulega mætingu og samskifti á skrifstofunum, stofnunin sjálf óskar helst að mest allt af samskiftum fari fram á vefsíðunni, allir eiga að vera með “min side” sem þarf þá að skrá sig inn á og  aðeins viðkomandi og NAV hefur aðgang að, en samt sem áður ber skrifstofum NAV að aðstoða fólk sem annaðhvort ekki hefur aðgang að vefnum eða skilur ekki til hlýtar hvernig síðan virkar, og slíka aðstoð má þá einnig veita í tölvum stofnunarinnar sem gjarnan eru tiltækar í móttökunni.

Örorkubætur, fatlaðir, ellilaun, lífeyrir og veikindi 

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er þetta umfangsmikið efni og ekki endilega víst að þessir þættir heyri allir saman í sömu grein, en hér verður reynt að gera þessu eins góð skil og kunnátta leyfir.
Vegna umfangs verða í mörgum tilfellum bara settir inn hlekkir til að koma fólki á sporið meðan annað verður þá skýrt betur eftir því sem hægt er.

Byrjum þá á örorkunni.

Svo gott sem ómögulegt er að gera svo umfangsmiklu máli tæmandi skil hér, svo í öllum tilfellum er best að hafa samband við NAV (vinnu-, trygginga- og félagsmálastofnun Noregs) um þessi mál, gjarnan að undangengnu samráði við heimilislækni.

Örorka er metin eftir svipuðum reglum og á Íslandi, en rétt að setja sem fyrirvara að það má kannski reikna með einhverjum mun á slíku milli landa í einstaka tilfellum, en sem sagt örorkugráðan er metin af NAV í samræmi við greiningu og læknisvottorð, samkvæmt reglum þarf viðkomandi að vera metinn 50% öryrki eða meir til að fá örorkubætur en þetta er flóknara en svo, þannig að HÉR er hlekkur á NAV um hvaða reglur gilda ( 12:7 og 12:8 að mestu) og hvernig þetta getur verið mismunandi allt eftir því hvort viðkomandi er í starfi og hvort um hlutastarf eða fullt starf er að ræða. Einnig eru þarna ýmis dæmi um hvernig þetta kemur út, allt eftir tekjum og fleira.

Semsagt, verði maður öryrki eftir 3 ára dvöl hér í Noregi, er maður metinn í Noregi, og fær þá grunnörorku eftir því mati frá NAV, en áunnin réttindi frá báðum löndum leggjast  saman og þá getur verið að Tryggingastofnun óski að gera eigið mat og þetta er þá hlutur sem NAV internasjonal  ber að veita aðstoð við.

Titlinum á örorkubótum var nýverið breytt úr „uførepensjon“ i „uføretrygd“ í nýjasta fjárlagafrumvarpi núverandi ríkisstjórnar. Meira um það HÉR.

Þetta er þó meira en bara nafnbreyting, þarna breytast reglur um skatt (sérfrádráttur öryrkja hverfur) og um leið hækkar þakið á því hvað má þéna samhliða örorkunni. Einnig heldur öryrkinn sinni gráðu af örorku óháð aukatekjum og næstu þrjú árin verða örorkubæturnar stilltar (hækkaðar) sem svarar aukinni skattlagningu, þannig að fyrir flesta kemur þetta út meira eða minna óbreytt, en komið hefur í ljós að viss hópur kemur verr út en áður, sérstaklega á það við um aðila sem skulda mikið.

Að flytja til Noregs á íslenskum örorkubótum eða ellilífeyri RB88064066467

Umfjöllun í fyrri kafla gildir aðeins fyrir þá sem eiga rétt á norskri örorku, því eins og kemur fram í kaflanum á undan, til að  innfluttir aðilar eigi rétt á norskri örorku, þarf viðkomandi að hafa búið hér í minnst þrjú ár áður en hægt er að sækja um norska örorku, á meðan sá sem flytur hingað, og er annaðhvort þegar á örorku frá Íslandi eða verður öryrki innan þriggja ára, fær sínar greiðslur frá Íslandi, Tryggingastofnun sendir því miður ekki greiðslur milli landa, svo hafa verður aðgang að íslenskum bankreikningi fyrir slíkar greiðslur, en flestir bankar taka gjarnan að sér að senda greiðslur áfram til Noregs.

Rétt er svo að hafa alltaf samráð við  NAV internasjonal  þegar um greiðslur frá báðum löndum er að ræða, sú deild á að aðstoða í slíkum tilfellum.

Athuga ber að við flutning öryrkja frá Íslandi falla ýmsar aukabætur niður, þó að sjálf örorkan greiðist áfram á nýtt heimilisfang erlendis, þetta á Tryggingastofnun að geta gefið nánari upplýsingar um.

Gott er að hafa það bak við eyrað að viss skammtur af þolinmæði getur reynst nauðsynlegur í öllum samskiptum við bæði Tryggingastofnun og NAV, mismunur milli svæða og sveitarfélaga hér í Noregi getur verið allmikill hvað varðar málsmeðferð og þjónustu NAV en reglurnar eru eins fyrir alla. Ein af meginreglunum er krafa um innsýn og meðvirkni í eigin málum, ásamt aðstoð við umsóknir.

Í því sambandi er kannski rétt að hlaða þessu niður og prenta út og hafa með sér.

Einnig hafa að minnsta kosti tvær persónur á Facebook-síðunni „Íslendingar í Noregi“ boðið fram aðstoð í slíkum málum en sá sem hér ritar hefur hvorki umboð né leyfi til að vísa á þær, reynandi er að spyrja eftir þeim á síðunni.
HÉR eru bæði gagnlegar upplýsingar og hlekkir á íslensku.

Staða og málefni fatlaðra sem flytjast frá Íslandi til NoregsLogos-4-handicaps-corrige

Alltaf er ráðlegt að hafa samband sem fyrst við starfandi samtök fatlaðra í hinum ýmsu greinum, að vera félagi í slíkum samökum kostar yfirleitt ekki mikið en aðgengi að upplýsingum og ýmiss konar aðstoð vegur margfalt upp á móti kostnaði og svo er félagslega hliðin mikilvæg líka.

NHF Norges Handikapforbund, smella á „Landsforeninger“ og þá koma hinar ýmsu deildir upp.

FFO Funksjonshemmedes Fellesorganisasjon, smella á bókstafina undir „Organisasjoner på“ og þá koma upp hin ýmsu samtök, 75 talsins. Undir „F“ eru landssamtök vöðvasjúkra svo dæmi sé tekið (Foreningen for muskelsyke).

Norges Blindeforbund samtök blindra og sjónskertra, hlekkurinn vísar á lista yfir fylkissamtök.

HLF Hørselshemmedes landsforbund, samtök heyrnarskertra, sama hér, hlekkurinn vísar á fylkisdeildirnar.

„Landsforbund“ eru vitaskuld ekki tæmandi talin hér en þessi ná yfir flestar algengustu tegundir fötlunar.

Fjárhagur og hjálpartæki eru án efa, ásamt læknishjálp, það sem flestir með einhverja fötlun eru uppteknir af.
Hvað varðar beina fjárhagsaðstoð, örorku og þess háttar, vísast í kaflann á undan um einmitt það efni en varðandi rétt til hjálpartækja getur það verið aðeins snúið í byrjun, hafi maður t.d. heyrnartæki eða hjólastól frá hjálpartækjabankanum á Íslandi, útvegað af Tryggingastofnun, verður að sækja um leyfi til að taka þessi hjálpartæki með sér ef dvalist er lengur en þrjá mánuði erlendis.
Þetta ætti þó ekki að vera miklum vandkvæðum bundið en getur valdið því að NAV hiki við að útvega nauðsynleg hjálpartæki fyrstu mánuðina, jafnvel fyrstu árin, eftir flutning og vísi á upprunalandið.

Þetta er þó alls ekki algilt, ef til dæmis breytt heilsuástand gerir að þörfin fyrir öðruvísi og/eða nýtt hjálpartæki kemur upp, er vel athugandi að sækja um hjá NAV, í öllum tilfellum með norsk hjálpartæki  er nefnilega tækið eign norska ríkisins og er þessvegna alltaf um útlán að ræða.

Til að gefa aðeins betri mynd af þessu má kynna sér HÉR (sami hlekkur og í enda fyrri kafla) og athuga sérstaklega kafla um hjálpartæki, bifreiðar og fjáhagsaðstoð, einmitt þar undir er hlekkur á umsóknareyðublöð til NAV um aukagreiðslur/aðstoð fyrir þá sem hafa sérstök útgjöld vegna sjúkdóms og/eða fötlunar.

Þar að auki er viss samvinna milli hjálpartækjabankanna á Norðurlöndunum (Evrópu að hluta líka) varðandi viðhald og viðgerð á hjálpartækjum svo notandi sleppi við að senda hjálpartækið til upprunalandsins, hafa ber samt í huga að ef hjálpartækið er fengið á Íslandi og þar með eign íslenska ríkisins, ber manni að hafa samband við íslenska hjálpartækjabankann ef þörf er á viðhaldi/viðgerð, allavega í fyrsta sinn sem það skeður,  en eftir ákveðinn tíma, 3 ár t.d., á ekki að vera neitt vesen að fá endurnýjað eða ný hjálpartæki beint frá NAV, ekki hika við að sækja um og fylgja eftir með vísan til reglna og ekki hika við að krefjast skjalfestrar staðfestingar á neitun ef um slíkt er að ræða.

Varðandi aðra aðstoð er ýmislegt í boði, svo sem persónuleg aðstoð, aðstoð við að setja húsnæði í stand til að það henti betur þeim fatlaða svo eitthvað sé nefnt. Um þetta er sótt hjá sveitarfélaginu meðan hjálpartæki, aðstoð við bílakaup og aukagreiðslur vegna útgjalda koma frá NAV en gjarnan að höfðu samráði við iðjuþjálfa (ergoterapeut) í sveitarfélaginu.

Enn eitt sem vert er að nefna og er mjög svo á dagskrá núna eru atvinnumöguleikar fatlaðra, einhugur er með stjórnmálaflokkanna um að gera sem mest í því að fólk með skerta starfsgetu og hreyfihömlun skuli eiga eins mikla möguleika og hægt er til að komast á vinnumarkaðinn. Töluvert hefur verið gert nú í nokkur ár og á fjárlögum yfirstandandi árs (2015) eru breytingar í örorkureglum liður í þessu starfi. Auk þessa er lagt til að efla persónulega aðstoð, BPA, til að einmitt gera fötluðum léttara að taka þátt í atvinnulífinu svo möguleikarnir eru ýmsir ef fólki finnst það geta lagt eitthvað af mörkum. Þarna er það alfarið NAV sem er framkvæmdaaðilinn, til dæmis með ráðgjöf um aðlögun á vinnustað og fleira.

Rétt er að vekja athygli á kaflanum „Börn með hreyfihömlun“ HÉR en í slíkum tilfellum hefur þessi þriggja ára regla sem beitt er um örorkuna ekki alltaf verið látin ráða svo þar eru möguleikar fyrir þá sem eru í slíkri stöðu og að sjálfsögðu fyrir þá sem eru alfarið komnir inn í norska almannatryggingakerfið.

Ellilaun og lífeyrir old man

Þessi mál eru í stöðugri þróun og breytingum háð sem er eðlileg afleiðing þess að fólk verður eldra og heilsan betri með hverri kynslóð. Við höldum okkur bara við stöðuna eins og hún er nú. Meginreglan hér er að eftirlaunaaldur er 67 ár, í mörgum starfsgreinum er samið um svokallað AFP (avtalefestet pensjon) sem oftast nær gerir starfsmanni mögulegt að taka út sínar eftirlaunagreiðslur frá 62 ára aldri, sama hvort viðkomandi vinnur áfram eða ekki, en það hefur svo aftur áhrif á upphæð greiðslna hvort unnið er áfram eða ekki. Hjá ýmsum starfsgreinum er svo enn lægri eftirlaunaldur og má þar nefna sumar deildir í bæði lögreglunni og hernum.

Helstu breytingar sem vænta má eru í þá átt að fólk geti unnið lengur en til 67 ára ef það óskar og hefur heilsu, nú þegar eru margir í vinnu til 70 ára aldurs eða meir.

En hvernig snertir þetta okkur innflutta Íslendinga? Það er auðvitað flókið eins og við er að búast en samt byggt á vissu ferli og samkomulagi milli bæði Norðurlandanna og Evrópska efnahagssvæðisins, þannig að 40 ára reglan, þ.e. að maður sé búinn að búa minnst 40 ár í Noregi eftir 16 ára aldur og að 67 ára aldri, veitir fulla þátttöku í norska almannatryggingakerfinu, allt þar á milli deilist upp á milli landanna sem dvalist er í, þannig að ef maður kemur hingað 30 ára gamall fær maður réttindi frá Noregi tilsvarandi 30 til 67 ára = 37 ár af 40 sem eru næstum full réttindi. Árin þrjú sem vantar koma þá frá Íslandi á meðan sá sem kemur hingað 27 ára gamall fer í full réttindi. Komi einhver hingað 37 ára fær sá hinn sami 30 ár metin í norsk réttindi, það sem upp á vantar kemur frá Íslandi og svo framvegis.

Rétt er þó að taka fram að til að fá fullan grunnlífeyri er nóg að hafa verið hér í þrjú ár en þessi deiling milli landa gildir um lífeyri umfram grunnlífeyri.

Annar lífeyrir (tjenestepensjon) fer svo algerlega eftir því hvernig sjóði fólk hefur verið í bæði hérlendis og á Íslandi, þetta er gjarnan líka metið eftir árafjölda og greiðslum í sjóðinn og er erfitt að gefa tæmandi upplýsingar hér um allt. Nokkuð góð samantekt HÉR   og einnig á síðum NAV.

Rétt er að gera vissan fyrirvara um ofangreindar upplýsingar þar sem þessi málaflokkur er síbreytilegur. Í öllum tilfellum ber auðvitað að hafa samband við viðeigandi stofnanir og kynna sér hvert tilfelli fyrir sig.

Veikindisick-kid-22157013-1mp2vlk

Noregur er talinn vera með besta veikindafyrirkomulag sem þekkist hvað varðar launþega en státar jafnframt af mestu veikindaforföllum á Norðurlöndunum enda sú skoðun útbreidd að hér þurfi breytinga við en slíkt er ekki létt þegar búið er að koma einhverju á eins og gengur.

Allir launþegar eiga rétt á sjúkradagpeningum frá fyrsta degi, fyrstu 16 dagana greiðast þeir af vinnuveitanda og þá sem full laun hlutfallslega miðað við það sem launþeginn hafði yrir veikindin, eftir það tekur NAV við og greiðir þá sem svarar 100% af grunnlaunum allt að «6G» (1G er viðmiðun sem samsvarar lægstu örorku/ellilífeyri).

Réttur til veikindapeninga/-launa er háður því að viðkomandi hafi verið í starfi minnst fjórar vikur fyrir veikindin og að sjálfsögðu með skerta vinnugetu vegna veikindanna.

Það sem svo gerist (við lengri veikindi en 50 vikur) fer eftir ástandi og mati NAV og læknis/sérfræðings, þá er ýmislegt í boði svo sem starfsþjálfun, hlutastarf og veikindafrí að hluta, síðast en ekki síst örorka ef viðkomandi er ekki í ástandi til að byrja að vinna á ný.

Hjá flestum eru veikindi tímabundin og einnig skert starfshæfni eftr slys svo þá er spurningin hvenær þarf læknisvottorð og hvenær ekki.

Notast má við svokallaða „egenmelding“ fyrstu 16 dagana í veikindum en vinnuveitandi getur engu að síður krafist læknisvottorðs eftir þriggja daga veikindi og takmarkað þetta árlega við fjögur skipti. Að auki þarf viðkomandi að hafa unnið minnst tvo mánuði á sama stað til að geta notað „egenmelding“ en ef maður vinnur hjá svokölluðum IA vinnuveitanda (IA= Inkluderende arbeidsliv) getur maður aftur á móti notað egenmelding átta daga í senn og allt í allt 24 daga á ári, engin takmörk eru á hversu oft þetta er notað innan þess ramma sem dagafjöldinn segir til um.

HÉR er það sem segir um þetta hjá altinn.no. einnig hægt að finna uppl.hjá NAV.

Að lokum má svo nefna að NAV er, eins og komið hefur fram hér ofar, vinnumálastofnun Noregs í viðbót við allt annað sem upp hefur verið talið, sér um að greiða atvinnuleysisbætur (dagpenger) og aðstoða við að finna vinnu og/eða endurþjálfa fólk til annarra starfa en það er vant og þjálfað til, lítillega er minnst á stofnunina í kaflanum „Atvinnuleit – Vinna í Noregi“ svo ekki verður fjallað meira um þann þátt stofnunarinnar í þessum kafla.