Skattar í NoregiSkattar í Noregi: Í þessum kafla munum við fara yfir tekjuskatt almennra launþega og þá frádrætti sem þeim er leyfilegt að nota á móti sínum tekjum.

Almennur tekjuskattur (skatt av alminnelig inntekt):

Tekjuskattur 22%.  Þetta er sá skattur sem greiddur er af svokölluðum almennum tekjum (n. alminnelig inntekt).  Almennar tekjur eru allar venjulegar tekjur sem einstaklingur getur haft, t.d. launatekjur, lífeyristekjur, tekjur af rekstri, tekjur af fjármagni o.s.frv.  Hér er þó um að ræða nettótekjur, því áður en skatturinn er greiddur skal maður draga frá tekjum sínum frádráttarbæran kostnað.

Frádrættir (fradrag):

Allir sem hafa tekjur fá svokallan persónufrádrátt (n.personfradrag) að upphæð 52.450.  Einstæðir foreldrar fá auka persónuafslátt að upphæð 51.804.

Í Noregi er litið svo á að allur kostnaður sem maður verður fyrir við að vera í vinnu skuli vera frádráttarbær frá tekjunum, alveg eins og fyrirtæki geta dregið frá kostnað af sínum tekjum.  Til að halda utan um flestan kostnað við að vinna fær fólk svokallaðan lágmarksfrádrátt (n. minnstefradrag) sem er 45% af heildarlaunatekjum, þó að hámarki 104.450, sem er þá af rúmlega 232.000 kr. heildartekjum.  Sá kostnaður sem lágmarksfrádrátturinn innifelur er m.a. kostnaður við vinnuföt, kostnaður við eigin verkfæri, kostnaður við að koma sér í vinnu upp að 23.100 kr. á ári og fleira þess háttar.

Aðrir frádrættir eru eftirfarandi:

  • Frádráttur vegna greiðslu í stéttarfélag að hámarki 3.850.
  • Frádráttur vegna barnagæslu barna yngri en 12 ára, að hámarki 25.000 fyrir barn númer 1 og 15.000 fyrir næstu börn.  Hér verður maður að geta sýnt raunverulegan kostnað, t.d. vegna leikskóla eða SFO.  Þeir sem eiga fleiri en eitt barn undir 12 ára geta samnýtt heildarafsláttinn þrátt fyrir að kostnaður sé ekki vegna allra barnanna.
  • Frádráttur fyrir einstæða foreldra, 51.804.
  • Frádráttur vegna vaxtakostnaðar, allur kostnaður vegna vaxta, hvort sem er af húsnæðislánum, bílalánum eða neyslulánum.  Að hámarki 17% af heildarskuld.
  • Finnmarksfradrag,  15.500.  Þar að auki greiðir fólk í Finnmark og Troms 3,5% minna í almennan skatt.
  • Útlendingaafsláttur (n. standard fradrag for utenlandske arbeidstakere).  10% af heildartekjum að hámari 40.000.  Fyrstu tvö árin (stundum þrjár skattaskýrslur) geta útlendingar nýtt sér þennan afslátt í stað þess að að nýta sér aðra afslætti (þó fær maður alltaf personfradrag, minnstefradrag og fagforeningsfradrag).  Ef aðrir afslættir eru lægri en 40.000 (eða 10% af launum) er betra að nýta sér þennan afslátt.  Hann er þó þannig að maður þarf að biðja um hann sérstaklega á skattskýrslu.

Hátekjuskattur (Trinnskatt 1 – 4):

Þrep Laun frá Laun til Skattur
Trinn 1 184.800 260.100 1,7%
Trinn 2 260.100 651.250 4,0%
Trinn 3 651.250 1.021.550 *   13,2%
Trinn 4 1.021.500 16,2%

* 11,2% í Finnmörku.

Hátekjuskattur er tekinn af samtals heildartekjum, þannig að launatekjur og aðrar tekjur eru lagðar saman.  Enginn afsláttur er gefinn af hátekjuskatti.

Tryggingagjald (trygd):

Tryggingagjald launþega er 8,2%.  Innifalið í tryggingagjaldi er gjald til almenns lífeyrissjóðs, atvinnuleysistrygginga, fæðingarorlofssjóðs o.fl.  Tryggingagjald er ekki greitt af tekjum undir 59.650.  Frá 59.650 greiðir maður 25% tryggingagjald þar til tryggingargjaldið nemur 8.2% af heildarlaunum.