Lúsíumessa: 13. desember í Noregi

Í dag, þann 13. desember, er svonefnd Lúsíumessa haldin hátíðleg í Noregi; eða minningardagur heilagrar Lúsíu af Sikiley. Ýmsar goðsagnir tengjast Lúsíu, sem vann sér það helst til frægðar að hafa gefið efnalitlum heimanmund sinn við giftingu við litla hrifningu eiginmanns hennar, en fyrir það var Lúsía að lokum tekin af lífi af landstjórn og seinna meir tekin í dýrlingatölu.

Lengi framan af var Lúsía talin tengjast myrku öflunum, kaþólikkar höfðu hljótt um heilaga Lúsíu framan af en á Endurreisnartímanum birtist Lúsía að nýju, nú undir nafninu “Lussi” og talin tengjast sjálfum Lúsífer. Gamlar norrænar frásagnir herma að Lúsía hafi verið tröll og að hún tæki lítil börn (hér á Lúsía sitthvað skylt við sjálfa Grýlu) og var áður talið affarasælast að fara ekki úr húsi eftir myrkur á Lúsíumessu.

Ýmsar goðsagnir tengjast Lúsíu og sumar misfagrar. Yngri sögur herma þannig að Lúsía hafi rifið úr sér bæði augun og fært ungum manni til gjafar og því birtist heilög Lúsía oft á myndum með augu í skál, en gott hefur þótt að heita á Lúsíu við augnsjúkdómum og hrakandi sjón. Lúsía er talin móðir gjafmildi og verndari fátækra. Messudag sjálfrar heilagrar Lúsíu ber alltaf upp þann sama dag; 13. desember og er aðfaranótt Lúsíumessu jafnan talin vera lengsta nótt ársins.

Samkvæmt þjóðsögunni var Lúsíunótt varasöm og því var brugðið á það ráð að senda ungar jómfrúr út á örkina þegar dimma tók. Þær skyldu allar klæðast snjóhvítum kyrtlum og með kertaljós í hönd eða á höfði, sem þær báru sem krans. Þá skyldu jómfrúrnar ganga umhverfis húsið og syngja á frummálinu:

“Lussinott lange, intet være bange. Gud beskytte gård og grunn, fisk i vann og fugl i lund. Intet være bange, Lussinott lange”

Önnur þjóðsögn, sem einnig tengist ungum jómfrúm, hermir að á sjálfa Lúsíumessu geti ungar konur skyggnst inn í framtíðina. Þær ættu þá að horfa djúpt í spegil og fara með eftirfarandi vísukorn:

“Lucia på skånsom skal fly meg stort, hvis navn jeg vil bære, hvis jeg gravde skal spre seg, seng hvis jeg skal forklare, hvis jeg skal ha barn.”

Ekki margir vita þó að hið víðfræga jólaglögg, sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi, var upprunalega hluti af þeim helgisiðum sem tengist aðfaranótt Lúsíumessu, en hægt er að lesa meir um Lúsíumessu á íslensku með því að smella HÉR

Lúsíumessa er haldin hátíðleg í Noregi og eru hátíðir víða haldnar á leikskólum og grunnskólum, en algengt er að börn klæðist hvítu þennan dag á leik- og grunnskólum og beri jafnvel skart á höfði til heiðurs sjálfri Lúsíu. Norðmenn heiðra Lúsíu gjarna með Lúsíusöng, sem fjallar um skammdegið og þá hlýju sem fólgin er í því að láta af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín.

Full útgáfa Lúsíusöngsins með öllum erindum er að finna HÉR en fyrsta erindið er svohljóðandi:

Svart senker natten seg

i stall og stue

solen har gått sin vei,

skyggene truer

inn i vårt mørke hus

stiger med tente lys,

Santa Lucia, Santa Lucia

Nánari upplýsingar um sjálfa Lúsíumessuna er að finna á hinni norsku Wikipedia, smellið HÉR