LykillFyrir utan atvinnuleit eru húsnæðismálin eðlilega það sem mest brennur á fólki við flutninga til annarra landa og eru flestir í þeirri stöðu að þurfa helst að hafa eitthvað í hendi áður en flutt er frá Íslandi. Eitthvað er þó um að nýfluttir fái inni hjá kunningjum fyrstu dagana í landinu eða búi á gistihúsum á meðan leitað er að húsnæði til leigu.

Stór húsnæðisleigumarkaður er í Noregi og reyndar Skandinavíu allri og meira um það hér að fólk búi alla ævina í leiguhúsnæði en að það kaupi eigið húsnæði eins og Íslendingar þekkja frekar. Algengt leiguform í Noregi er að húsnæðiseigendur leigi hluta af eign sinni út og noti leigutekjurnar til að greiða af fasteignaláninu. Margir Íslendingar hér þekkja af eigin reynslu það fyrirkomulag að hafa leigusala sína sem nágranna og búa til dæmis í kjallaranum hjá þeim.

Auglýsingar

Á síðunni Finn.no er að finna ríkulegt úrval af fasteignaauglýsingum, hvort tveggja eignir til sölu og leigu. Leigusíðan er hér, veldu fylki og sveitarfélag (eða sveitarfélög, hægt er að velja fleiri en eitt samtímis) og byrjaðu að leita. Auðvelt er að þrengja leitina með fjölda þátta, verði íbúðar, stærð, fermetrafjölda, fjölda svefnherbergja og fleira. Flestir leigusalar gefa upp símanúmer sitt en einnig er hægt að senda tölvupóst gegnum auglýsinguna.

Mjög góðir möguleikar felast í að setja eigin auglýsingu á Finn.no og/eða auglýsa í dagblaði. Mörg dagblöð bjóða tilboð þar sem greitt er fyrir auglýsingu sem birtist þá þrjá til fjóra daga í blaðinu og er í 30 daga á Finn.no. Best er að hafa orðalag auglýsingarinnar stutt og hnitmiðað en afmarka vel grunnkröfur, nefna þarf æskilegan fjölda svefnherbergja, taka fram ef gott væri að leikskóli eða barnaskóli væri í grenndinni og því um líkt. Tilgreindu aldur og fjölda barna og segðu frá því að þú/þið sért/séuð reyklaus ef sú er raunin. Láttu líka vita af því að þú sért ekki partýljón sem hefur græjurnar í botni allar nætur og það er gott að láta fylgja að þú sért í fastri vinnu ef svo er. Séu gæludýr í spilinu verður að taka það fram og þótt það sé umdeilanlegt í þjóðernislegu tilliti að setja það fram hér þá gefur það verulegan meðbyr að segjast vera Íslendingur, þannig er það bara og dæmin hafa sannað það. Hérna er dæmi um auglýsingu miðað við hjón með börn og gæludýr:

Islandsk ektepar i fast arbeid, rolig og uten røyk, med to gutter, 12 og 14 år, hund og to katter, søker umøblert hus eller leilighet med 4 soverom i [borg/bær] området til langtidsleie. [nafn], mob. +354-xxx-xxxx eller mail xx@xxx.

Ef þú ferð ekki með búslóð til Noregs og ætlar þér ekki að kaupa öll húsgögn hér strax í byrjun er snjallt að biðja um møblert, það er að segja með húsgögnum. Mjög margir Norðmenn leigja fasteignir sínar út með öllum húsgögnum, húsgögnum að hluta (delvis møblert) eða þá að þetta sé hreinlega eftir samkomulagi. Stundum er rafmagn innifalið í leiguverði og þá láta margir leiguverðið ráðast af fjölda íbúa í leiguhúsnæðinu því rafmagn er rándýrt í Noregi og hér er enginn jarðhiti eins og við þekkjum frá Íslandi svo sturtu- og baðvatn er hitað með rafmagni. Það getur verið óvitlaust að þiggja leiguíbúð með þessu fyrirkomulagi þar sem þú losnar þar með við árstíðasveiflur í rafmagnskostnaði en almennt hækkar rafmagnsreikningurinn verulega yfir vetrarmánuðina þar sem rafknúnir ofnar eru mjög algeng lausn við húshitun.

Trygging – depositum

Töluverður munur er á íslenskum og norskum leigumarkaði hvað varðar tryggingar og eins er sjaldgæft að norskir leigusalar biðji um greiðslu fyrir tvo eða fleiri mánuði fyrir fram og leigutaki fái hana til baka með því að leggja ekki út greiðslur síðustu mánuðina í húsnæðinu. Hér er svokallað depositum algengasta formið. Það virkar þannig að leigusali og leigutaki fara saman í banka og opna svokallaðan depositum-reikning sem er á nafni beggja. Inn á þennan reikning leggur leigutaki oftast þrefalda, en stundum tvöfalda, mánaðarleigu og sú upphæð stendur svo sem trygging fyrir skemmdum á húsnæðinu eða vangoldinni leigu. Hvorki leigusali né leigutaki geta tekið fé út af reikningnum upp á sitt einsdæmi, þeir verða að koma saman í bankann þegar leigutíma lýkur og taka upphæðina út. Henni er svo skilað til leigutaka hafi allt reynst í lagi við skil á húsnæðinu og hann á einnig alla vexti sem bæst hafa á upphæðina. Við upphaf leigu þarf leigutaki því að vera fjárhagslega í stakk búinn til að greiða leigu fyrsta mánaðar og þrefalda depositum-greiðslu. Kosti leiguhúsnæði 9.000 NOK á mánuði þarftu því að punga út 36.000 NOK þegar þú flytur inn.

Skriflegur samningur um leiguna inniheldur flest það sama og búast má við að sjá í húsaleigusamningi á Íslandi. Þar er leiguhúsnæðið tilgreint, upphæð leigu, hvenær leigan skuli greiðast í síðasta lagi og inn á hvaða reikning auk þess sem uppsagnarfrestur er tilgreindur. Algengt er að hann sé þrír mánuðir og byrji að telja næstu mánaðamót eftir að samningnum er sagt upp. Ef þú segir upp leigunni 15. maí flyturðu út 31. ágúst.

Ástand húsnæðis

StavangerSkoðaðu íbúðina vel og reyndu að meta ástand hennar. Virka allir kranar, er hægt að sturta niður í klósettinu, hvaða helvítis lykt er í eldhúsinu? Taktu með í reikninginn að norsk hús eru miklu minna einangruð en íslensk og hérna samanstanda heilu borgirnar af timburhúsum eingöngu. Það fer auðvitað eftir staðsetningu, Noregur er 1.752 kílómetrar á lengd frá norðri til suðurs, en þú mátt búast við að það verði kalt á veturna og þá þarf að hafa ofnana hátt stillta. Þetta er ekki galli á húsinu/íbúðinni, Norðmenn telja það fullkomlega eðlilegt að þurfa að hita verulega upp hjá sér yfir vetrartímann og auk ofna og varmadælna (n. varmepumpe) er arineldur enn þá algengasta aðferð til húshitunar í Noregi og er kaup og sala eldiviðar álíka líflegur markaður hér á veturna og bjórsala í Danmörku. Ekki hika við að spyrja leigusala hvort hann hyggist bæta úr sjáanlegum göllum eða skemmdum og fáðu skýr svör, jafnvel skrifleg.

Hvað kostar að leigja?

Mjög takmörkuð viðmið gilda í Noregi um upphæð húsaleigu og er ekki hægt að styðjast við mælikvarða á borð við algengt fermetraverð í ákveðnum hverfum eða bæjarhlutum og svo framvegis. Húseigandi setur einfaldlega upp það verð sem honum dettur í hug. Auðvitað má þó hafa til viðmiðunar það sem gildir alls staðar í Evrópu að dýrast er að leigja í eða við miðbæ. Ef þú ert tilbúin(n) að búa frekar afskekkt og jafnvel  langa vegu frá vinnustað geturðu krækt þér í stórt einbýlishús á leigu fyrir langtum lægra verð en þú mættir búast við að greiða fyrir 50 fermetra íbúð í miðbæ næstu borgar eða bæjar. Ferðatími til og frá vinnu, í verslun eða líkamsrækt getur hins vegar orðið töluverður en víða í Noregi ganga lestir auk strætisvagna og sums staðar sporvagna svo ekki þarf að vera svo bölvað að búa örlítið fyrir utan og ferðast með lest. Gæði almenningssamgangna eru þó ærið misjöfn og fólk verður að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvað borgar sig þegar kemur að búsetustað.

Skynsamlegt er að líta fyrst í kringum sig eftir húsnæði til skammtímaleigu. Fáir eru svo heppnir að ramba beint á íbúðina eða hverfið sem þeir ílengjast svo í enda ekki nema eðlilegt. Sértu komin(n) með vinnu á ákveðnum stað eða ákveðin(n) í að vilja búa þar veitir Google Maps frekar takmarkaðar upplýsingar um annað en fjarlægðir milli bæjarhluta og algjörar grunnupplýsingar og líklega eru þeir ekki margir sem valið hafa draumahverfið sitt með hjálp slíkra miðla. Sá sem þetta skrifar reyndi það en hafði kolrangt fyrir sér þegar á hólminn var komið. Eftir hálft til eitt ár á staðnum veistu yfirleitt hvar þig langar að búa og getur ákveðið hvort æskilegt sé að vera nálægt vinnustaðnum/skólanum eða hvort önnur gildi ráði ferðinni. Gerðu ráð fyrir þessu, fyrst er að koma sér einhvers staðar inn, annað kemur seinna.