Barnabætur i Noregi

Barnabætur í Noregi eru skattfrjálsar greiðslur frá ríkinu, 970 NOK á mánuði fyrir hvert barn upp að 18 ára aldri, óháð tekjum eða eignum. Hjá hjónum greiðast bæturnar alla jafna til móður. Einstæðir foreldrar fá greitt sem nemur einum barnabótum auka, óháð því hve mörg börn þeir eiga.

Umsókn um barnbætur

Þrjár leiðir er hægt að fara til að fá barnabætur. Umsókn þegar barnið flytur til Noregs, umsókn þegar barnið flytur ekki til Noregs en býr annars staðar á EES-svæðinu og „umsókn“ þegar barnið fæðist í Noregi.

Umsókn þegar barn flytur til Noregs

barnabaetur

Um leið og þið fáið kennitölu farið þið til NAV og sækið um barnabætur. Þegar þið fyllið út umsóknina biðjið þið um að barnabætur greiðist frá komudegi, ekki umsóknardegi. Í einhverjum tilfellum verðið þið beðin um að skila svokölluðu E 411, um að þið hafið ekki rétt til barnabóta á Íslandi lengur. Umsókn um barnabætur er afgreidd á tímabili frá þremur vikum til þriggja mánaða. Þegar fyrsta greiðsla kemur fær maður greitt aftur í tímann.

Umsókn þegar barnið flytur ekki til Noregs en býr annars staðar á EES-svæðinu

Hér er um að ræða umsókn fyrir þá sem halda tvö heimili, annaðhvort vegna þess að annað foreldri býr og vinnur í Noregi eða vegna þess að börnin vilja vera áfram á Íslandi, t.d. vegna skóla. Skv. EES-reglum ber að greiða barnabætur í þeim löndum sem fólk vinnur og greiðir skatta. Þó er það þannig að greiðslur barnabóta skulu aðeins eiga sér stað í einu landi og þá í því landi sem greiðir hærri bætur . Ef annað foreldri býr og greiðir skatta í Noregi en hitt á Íslandi borgar það sig að fá bæturnar greiddar í Noregi en þá má maður ekki taka við bótum á Íslandi vegna sömu barna. Umsóknarferlið er líkt og vegna barns sem flytur til Noregs, nema að nú bætist við E401, um fjölskyldugerð. E 401 kemur líka frá skattinum á Íslandi. Hér getur umsóknarferlið orðið mjög langt, allt að 18 mánuðir. En barnabætur eru greiddar aftur í tímann eins og áður sagði.

„Umsókn“ þegar barnið fæðist í Noregi

Hér er umsókn innan gæsalappa þar sem ekki er um eiginlega umsókn að ræða. Þegar barn fæðist í Noregi sér spítalinn um að skrá barnið inn í landið og sækja um barnabætur fyrir það. Foreldrar sem hafa lögheimili í Noregi þurfa því ekki að gera neitt í þessu tilfelli. Barnabætur greiðast frá næsta mánuði eftir fæðingu.

Um greiðslur barnabóta

Í Noregi eru barnabætur greiddar mánaðarlega, síðasta virka dag mánaðar. Desember er undantekning en þá eru bæturnar greiddar þann 20. Á Íslandi eru barnabætur greiddar í uppgjöri á sköttum.  Barnabætur fyrir fyrra ár eru þá greiddar.  Þetta gerir það að verkum að þrátt fyrir að þið eigið ekki rétt á barnabótum frá Íslandi lengur eru þær greiddar áfram í allt að tvö ár í viðbót.  Barnbætur árið á eftir eru þó greiddar í hlutfalli við þann tíma sem þið bjugguð á Íslandi, t.d. fær aðili sem flutti 30. júní 2014 til Noregs barnabætur í hálft ár í Noregi.  Viðkomandi fær fullar barnabætur á Íslandi við uppgjör skatta í ágúst 2014 og síðan hálfar við uppgjör skatta 2015.